Öflugt og gefandi starf í Skjálfanda á haustönn !

13.01.2019
Öflugt og gefandi starf í Skjálfanda á haustönn !

Starf í Kiwanisklúbnum Skjálfanda hefur verið nokkuð hefðbundið á haustönninni 2018. Þó má fullyrða eins og oftast hefur verið, að starfið hafi einkennst af þróttmiklu starfi hvort það er á sviði fjáröflunar, styrkveitinga eða öflugu félagsstarfi innan klúbbsins, með það að markmiði að láta gott af sér leiða í samfélaginu og um leið að hafa gaman saman í kiwanis.

 

Öflugt og gefandi starf í  Kiwanisklúbbnum  Skjálfanda á haustönn !

Starf í Kiwanisklúbnum Skjálfanda hefur verið nokkuð hefðbundið á haustönninni 2018. Þó má fullyrða eins og oftast hefur verið, að starfið hafi einkennst af þróttmiklu starfi hvort það er á sviði fjáröflunar, styrkveitinga eða öflugu félagsstarfi innan klúbbsins, með það að markmiði að láta gott af sér leiða í samfélaginu og um leið að hafa gaman saman í kiwanis.

               Fjáraflanir nokkuð svipaðar og fyrri ár m.a. með vinnu við málun bílastæða fyrir stofnanir og fyrirtæki, með sölu auglýsinga á upplýsinga- og auglýsingarskiltin við innkomurnar í bæinn, sölu dagatala fyrir Þroskahjálp, og svo aðalverkefnið sem er Flugeldasalan okkar þar sem ágóðinn rennur til Björgunarsveita og fleiri líknarmála. Allt þetta hefur gengið vel fyrir sig, félagar verið duglegir að mæta í vinnu við öll þessi verkefni, og afraksturinn góður og lýsir um leið hinu þróttmikla starfi klúbbsins í þeirri viðleitni að koma að góðum málum í nærsamfélaginu.

               Í haust hefur klúbburinn veitt þó nokkrum fjármunum til styrktar einstaklingum og fjölskyldum þeirra, þar sem alvarleg veikindi hafa verið og valdið erfiðleikum og miklum kostnaði.      Þá voru veittir að venju nú fyrir jólin  nokkrir styrkir til fjölskyldna sem átt hafa í fjárhagserfiðleikum m.a. vegna veikinda barna. Þá hefur klúbburinn komið að íþróttastarfi fatlaðra með því að vinna með Bocciadeild Völsungs, komið að þjálfun og fararstjórn á mót ofl.

               Heimsóknir í klúbba hafa verið nokkrar í haust m.a fóru nokkrir félagar og makar á 50 ára afmæli hjá Kaldbak á Akureyri. Sameiginlegur stjórnarskiptafundur Öskju, Herðubreiðar og Skjálfanda var haldinn í Mývatnssveit í byrjun október, einnig héldu Herðubreið og Skjálfandi sameiginlegan jólafund í Sel-hóteli í Mývatnssveit nú í desember. Á alla þessa fundi var mökum boðið með og var mæting góð, veitingar frábærar og allir höfðu gaman saman. 

               Flugaeldasalan nú um áramótin gekk ljómandi vel, við fengum inni í húsnæði Björgunarsveit-arinnar Garðars, sem var mjög hentugt og aðstaða öll eins og best verður kosið. Er þetta nýjung í samstarfi klúbbsins og sveitarinnar og verður vonandi til frambúðar.

               Á klúbbfundum hefur farið fram góð umræða um innra starf klúbbsins, starfssemi á  Óðins-svæði og starfið í Umdæminu, og ýmislegt komið fram sem félagar vildu bæta og vinna að til að styrkja innra starf Kiwanishreyfingarinnar. Eitt sem veldur okkur vissum áhyggjum er hvað erfiðlega gengur að fá nýja félaga til liðs við klúbbinn, kynna sér Kiwanis og taka þátt í mikilvægu starfi hans hér í heimabyggð og um leið að vera þátttakendur í gefandi og skemmtulegu félagsstarfi Skjálfanda.

               Því er hér með komið á framfæri til þeirra sem hafa áhuga að vera með í öflugu Kiwanisstarfi, að hafa samband við undirritaðan eða einhvern félaga í Skjálfanda og óska eftir að fá að mæta á fundi í klúbbnum og kynna sér frábært og skemmtilegt félagsstarf með góðum kiwanis-félögum.

Húsavík 13. jan. 2019/EgO